Lífið í Derby

Friday, November 25, 2005

Snjór!

Allastaðar annars staðar en hjá okkur.. mikill snjór í Skotlandi og í Wales, þar sem að 450 skólum var lokað vegna snjós. Mig langar líka í snjó. Búið að vera skítkalt undanfarna daga, nenni ekki svona kulda ef ég fæ ekki snjó með.

Við erum búin að fjárfesta í eðalbifreið, stórglæsilegri Corollu, 1997 módel, rauð, með topplúgu og það sem er best, hún er sjálfskipt! Aldrei hefur mig langað til að eiga sjálfskiptan bíl fyrr en núna, einum minni hlutur að hugsa um :þ Ingó er búinn að rúnta grimmt á honum, og fór á honum í vinnuna í morgun, ég ætla að bíða að eins með það.

Fékk bréf frá læknastofunni upp í skóla í dag. Í því er mér boðið í flensusprautu. Ég hugsa að ég fari í hana þar sem að ég er hvort sem er búin að fá tvær sprautur síðustu tvær vikurnar, annars vegar fyrir heilahimnubólgu, hins vegar lifrabólgu B. Þarf svo að fara aftur í lifrabólgusprautuna um miðjan desember, og aftur í maí. Ein sprauta til, hvað er það?

Ingó er að fara á eitthvað strákadjamm í kvöld, ég ætla að vera heima og læra. Mig langar nefninlega að fara á Zanzibar annað kvöld þar sem að goðsögnin Peter André mun trylla lýðinn (stelpurnar). Má eiginlega ekki missa af því. Verður líka gaman að sjá Bretann tapa sér á götum borgarinnar þar sem að skemmtistaðir og pöbbar geta nú sótt um 24 tíma leyfi fyrir opnun.

NEWS FLASH: TAKE THAT hafa tekið saman á ný (án Robbie auðvitað) og eru að fara á tónleikaferðalag á ný!!!! Þvílík endalaus gleði! Ég þarf að fylgjast með þessu og ég ÆTLA sko á tónleika með þeim, það er eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei sjá!

Sunday, November 20, 2005

Rafmagnsleysi..

Ingó hringdi í mig í gær úr vinnunni (tók aukavakt á laugardegi) og sagði mér að það væri rafmagnslaust hjá þeim. Sendi mér svo sms og sagði rafmagnið farið af flugvellinum líka og í einhverjum nágrannabæjum við flugvöllinn væri rafmagnslaust. Það er víst verið að spara rafmagnið þar sem að þessi vetur á eftir að verða kaldasti veturinn í langan tíma (heppin við!), og beina einungis rafmagni inn á spítalana og heimili.. líður eins og í kreppu, vildi varla kveikja á tölvunni ;) Það er orðið ansi kalt hérna núna, allt frosið á morgnanna þegar maður fer út, svolítið kósý verð ég bara að segja.

Var ótrúlega glöð á miðvikudaginn, þegar það var sýndur Take That þáttur á ITV. Ingó flúði inn í herbergi til að horfa á allt annað en TT, skil ekki af hverju :þ Þeir sýndu brot frá blaðamannafundinum þegar þeir tilkynntu að þeir væru hættir, og ég get svarið fyrir það að ég fékk bara sömu tilfinningu og þegar ég horfði á þetta á MTV forðum daga - fór þó ekki að grenja eins og þá ;)

Við Ingó fórum fyrir viku síðan og keyptum okkur nýja, überhátækniþróaða síma. Svolítið stökk fyrir mig að fara úr gamla símanum mínum yfir í síma með litaskjá, pólýfón tónum og myndavél (ég veit - standard í símum í dag) sem er auk þess mp3 spilari og er með nettengingu - og símanum fylgdu heyrnartól og tengi fyrir prentara, þannig að ég get prentað myndir beint úr símanum mínum.. ótrúlegt.. er þó enn með gamla líka, á eftir að taka ansi langan tíma fyrir mig að venjast þessari græju..

Fórum í Sainsbury's að versla síðasta sunnudag. Stóðum og kjöftuðum í mjólkurdeildinni, þegar við heyrum einhvern spyrja hvort við séum að tala íslensku. Tók okkur smá tíma að fatta að það var verið að tala við okkur - á íslensku. Þá var þetta kærasti stelpu sem ég er búin að vera að spjalla við af barnalandi. Hann er búinn að búa hérna í held ég 1 og hálft ár, og hún var hérna í mánuð með litla strákinn þeirra. Við ætluðum alltaf að hittast en tíminn flaug hjá og hún er núna farin heim, en kemur aftur í janúar. Furðulegt að við skyldum hitta hann í Sainsbury's af öllum stöðum :)

Fórum í fyrsta ökutímann í dag, Ingó stóð sig eins og hetja, ég eins og kjáni. Þetta kemur samt ótrúlega fljótt, bara fjarlægðin frá bílstjórasætinu á kantinn hinum megin er fáranleg, keyrði 2x upp á kant þegar ég var að beygja. Gekk ágætlega í hringtorgunum en ætli það versta sé samt ekki að þurfa að skipta um gír með vinstri.. furðulegt.. ætlaði að skipta um gír fyrstu skiptin með hægri, hefði ekki mikið grætt á því nema kannski marbletti við það að kýla hurðina. En þetta gekk stóráfallalaust fyrir sig, og við förum í annan tíma næsta sunnudag.

Heiða hringdi í mig á föstudaginn með þær gleðifréttir að þau koma viku fyrr, þannig að þau verða yfir afmælið mitt! Fékk vægt sjokk þegar hún sagði að þau kæmu þá eftir 2 vikur - er ekki að komast yfir það hvað tíminn líður hratt. Við hlökkum alveg endalaust mikið til að sjá þau :)

Jæja, verð að fara að læra, reyni að blogga aftur innan viku.

Friday, November 11, 2005

Óskemmtilegt veður..

Það mætti bara halda að hingað væri komið monsoon-tímabil.. neinei, kannski svolítið ýkt.. þurfti að fara niðrí bæ eftir skóla að ná í jakka sem ég keypti með mömmu síðustu helgi, þar sem að afgreiðslustelpan reif hann þegar hún var að taka þjófavörnina úr (mjög sniðug).. það er aðeins byrjað að dropa á leiðinni í búðina og hún var orðin aðeins meiri þegar ég kem úr búðinni. Ég ákveð að taka ekki regnhlífina úr töskunni þar sem að þetta var bara smá rigning.. hefði betur átt að gera það, þar sem að rigningin jókst stöðugt og endaði í vænni dembu, auk þess sem að ágætis rok hafði verið fyrir til staðar. Pilsið mitt er doppótt núna eftir rigninguna, og ég með fáránlega flott wet-look.. not..

Við Ingó fórum í keilu á þriðjudaginn með nokkrum krökkum frá Lonsdale. Þegar við Ingó komum þangað opnaðist fyrir mér nýr heimur, áttaði mig á því hversu lítið ég þekki af Derby; nánasta umhverfi við íbúðina okkar, leiðina niðrí bæ og leiðina upp í skóla. Þar sem keilan er, er einnig bíó (Ingó reyndar búinn að fara nokkrum sinnum þangað með strákunum frá Lonsdale.. ég nenni ekki í bíó hérna frekar en heima ;)), Pizza Hut sem mig er farið að langa á, KFC sem er reyndar líka niðrí bæ, en þó ekki með bbq-kjúklingabita *hneyksl* og eitthvað fleira. Við þurfum greinilega að fara að flakka hérna um.. :S

Fórum á miðvikudaginn aðeins út að hitta krakkana. Byrjuðum á Varsity (2 fyrir 1 á miðvikudögum) og fórum svo á Bespoke (tilboð á barnum á miðvikudögum í samstarfi við Spank - stúdentakvöld). Þau fóru svo öll á Zanzibar sem er eingöngu opinn fyrir stúdenta á miðvikudögum. Ingó kemst því þar af leiðandi ekki inn, þó svo hann hafi smyglað sér með strákunum oft áður, þá með lyklana þeirra að herbergjunum á campusnum. Síðast þegar hann fór tóku dyraverðirnir skýrt fram að næst yrði hann að koma með skírteinið, annars kæmist hann ekki inn. Við fórum heim og ákváðum að kíkja í smástund yfir til Noisyboy, sem endaði með því að við komum hingað yfir aftur um 2 leytið. Til að útskýra, þá er Noisyboy nágranni okkar sem spilar músík hátt, sem pirrar okkur lítið sem ekkert, heldur eru það vinir hans sem fara í taugarnar á okkur, því þau koma öllum stundum - og eru ekkert að spá í hvort að það séu fleiri í kringum þau. Honum finnst þetta líka óþolandi, sagðist hafa búið í bænum og fengið heimsóknir á öllum tímum, hafi flutt hingað til að fá frið, en þau koma bara hingað í staðinn.

Heiða og Haukur eru búin að bóka far út 8. des, hlakka ekkert smá til að sjá þau. Ætla að athuga hvort ég geti ekki fundið einhverja skemmtilega draugagönguleið.. talandi um drauga, þá er Derby draugabær Englands, fyrir ykkur sem ekki vita. Ég er nokkuð viss um að hér sé reimt, í gær opnaðist upp úr þurru diskadrifið á tölvunni minni, og í morgun slokknaði ljósið í herberginu.. hélt kannski að peran væri sprungin en svo var ekki.

Smá update af dýraríkinu hjá okkur, þá er Fiona á bak og burt. Við erum alveg viss um að Ingó hafi eitrað fyrir henni með því að gefa henni flugu sem hann hafði spreyjað til dauða með flugnaeitri eða einhverju þvíumlíku. Ég er samt handviss um að það sé eitthvað samsæri í gangi og hún komi aftur innan tíðar, mun stærri og feitari en hún var svo hún geti hrellt mig meira.. vona samt ekki.

Jæja, föstudagur, búin að skila ritgerðinni, og ætla hlamma mér upp í sófa og horfa á innantómt raunveruleikasjónvarp. Hafið það gott um helgina!

Sunday, November 06, 2005

Gamlárskvöld..?

nei.. Guy Fawkes day.. hvað sem það nú er. Mikið búið að vera um flugelda síðustu daga, Guy Fawkes day var í gær og Diwali, nýár hindúa gekk í garð í vikunni með tilheyrandi sprengingum, maður fær bara á tilfinninguna að maður sé heima á gamlárskvöldi, sérstaklega þar sem það er aðeins farið að kólna hérna..

Mamma kom til landsins á miðvikudaginn og fór aftur heim í dag. Ég fór til London að hitta hana beint eftir skóla, og gistum á ekki ómerkari stað en Hilton hótelinu í Kensington. Ætluðum að kíkja út að versla eftir að við tékkuðum okkur inn, en þar sem að móðir mín tók óvart svefntöflu í staðinn fyrir járn, varð hún rosalega þreytt og fékk mikla sjóriðu, þar sem að líkaminn var að sofna á undan henni. Hún sofnaði svo og eftir að það hafði tekið mig 10-15 mín að vekja hana ákváðum við að kíkja út og reyna að finna okkur eitthvað að borða. Við fórum svo snemma að sofa, til að geta farið snemma niðrí bæ að versla :) Við skelltum okkur á Kensington High Street og náðum að versla ansi mikið. FYI þá hef ég engin föt verslað síðan ég flutti út, sem er mjög ótrúlegt, ég veit.. en það sem er enn ótrúlegra er það að ég hef ekki farið í klippingu síðan 26. ágúst! Hélt að þetta myndi aldrei gerast.. Náðum svo að versla meira hérna í Derby, og við 3 enduðum svo í Argos í gær að versla það sem vantaði á heimilið, bókahillur o.þ.h. Erum búin að hafa það mjög gott, fórum út að borða á Nandos í gær, veitingastað með mjög góða PiriPiri kjúklinga og portúgalska bjóra, þannig að manni fannst maður bara vera komin til Portúgal :) Við mæðgur tókum því bara rólega í gærkvöldi meðan Ingó skrapp til noisyboy hérna við hliðina á okkur. Mamma kemur svo aftur e. 6 vikur og Lára og Dóri vikuna eftir.. og ég veit að þetta á eftir að líða allt allt allt of hratt!

Verð að segja að heilbrigðisþjónustan hérna er helvíti góð.. hef aldrei borgað jafn lítið fyrir jafn mikla heilbrigðisþjónustu eins og ég hef þurft að nýta mér hérna. Fékk bronkitis aftur í september, nýbúin að losna við þá sem ég fékk rétt áður en við fluttum út. Ingó hringir fyrir mig í læknaþjónustu og ég fæ tíma hjá lækni, sem ég þurfti ekki að borga fyrir. Ég þurfti að kaupa lyf, sem kostuðu 6.50 pund. Eftir að pensilínið var ekki að virka, fór ég til læknisins upp í skóla og hann lét mig fá lyfseðil fyrir tveimur mismunandi lyfjum, sem ég borgaði 13 pund fyrir, s.s. öll lyfseðilskyld lyf kosta 6.50. Þurfti auk þess ekki að borga fyrir heimsóknina. Er svo búin að vera að drepast í einum jaxli og var það orðið það slæmt að ég gat ekki sofið á nóttunni. Ég fæ númer upp í skóla hjá neyðartannlækni og ég fæ tíma morguninn eftir. Hann skoðar, tekur röntgenmynd, deyfir 2x, borar, lagar og fyllir upp í (reyndar með bráðabirgðafyllingu) og fyrir þetta allt borgaði ég 13.12 pund.. 13.12 pund!! Ég skrifaði ávísun upp á skitin 13.12 pund fyrir tannlæknaþjónustu..

Nýja myndir á leiðinni í albúmið, aðallega af einhverju djammi. Ég ætla svo að vera duglegri við að blogga, er örugglega að gleyma haug af hlutum sem ég ætlaði að segja frá. Er að reyna að láta Ingó líka fá aðgang að blogginu á sínu nafni, veit bara ekki hvernig ég á að fara að því.. þið sem kunnið þetta megið kenna mér þetta :)