Lífið í Derby

Monday, September 17, 2007

Letidagar

Hætt í vinnunni og er hálf lost eitthvað í dag. Kann ekki lengur að hanga og gera ekki neitt. Síðasta vikan í vinnunni fór nú ekki alveg jafn hratt hjá og ég bjóst við, náði mér í gubbupest og komst ekki í vinnuna á þriðjudeginum, lá í staðinn heima í móki (sem er ástæðan að ég óskaði Stebba og Guðrúnu Pálínu ekki til hamingju með afmælin, og skammast mín fyrir það.. óska ykkur hér með til hamingju og biðst afsökunar..). Fór í vinnuna á miðvikudeginum en fór á heim á hádegi, þar sem að ég hafði enga orku og var hálf út úr kú með allt eitthvað. Hef ekki fengið svona pest síðan ég var krakki og vona bara að ég fái hana aldrei aftur... ojj...

Fórum öll í heimsókn til ömmu hans Matt í gær. Hún býr í bæ sem heitir Devizes og er í Wiltshire, og það tekur 3 tíma að keyra þangað. Sá fullt af yfirkeyrðum hræum á leiðinni og vonaðist til að ég myndi ekki lenda í því að þurfa að keyra yfir eitthvað grey dýr. Keyrði næstum því yfir fashana, hann rétt náði að fljúga upp og skall aðeins á þakið á bílnum með stélið. Leið ekki vel eftir á en þakkaði fyrir að þurfa ekki að keyra yfir hann. Heimska dýr.

Ég og Matt skelltum okkur í bíó á laugardagskvöldið, eitthvað sem ég nenni aldrei að gera. Fórum á 1408, og urðum eiginlega fyrir vonbrigðum. Hún byrjaði mjög vel og öll vitleysan í byrjun í herberginu var bara mjög góð, en svo fór þetta að vera aðeins of mikið rugl. Besta var nú samt að sjá að Halloween, ein af mínum uppáhaldsmyndum, er að fara að koma í bíó endurgerð og trailerinn var mjög spennandi. Rob Zombie gerir hana samt svo ég er ekki alveg viss hvort ég leggi í hana, er hálf hrædd við myndir eftir hann og hef ekki ennþá lagt í hinar myndirnar hans - held ég haldi mig bara við tónlistina hans.

Fótboltatíðin hefur ekki farið vel með Derby, byrjuðum vel og spiluðum mjög vel en höfum einungis fengið 1 stig og erum á botninum. Er að fara í kvöld á leikinn á móti Newcastle og efast stórlega um að við fáum eitthvað stig þar. Fórum til London á Tottenham leikinn og það var sárt að sitja þar og horfa á Derby tapa 4-0, sérstaklega þar sem að fyrstu 3 mörkin komu á fyrstu 14 mínútunum. Það hefur verið gert svolítið grín af mér í vinnunni útaf lélegu gengi Derby, þannig að það var ljúft að mæta í vinnuna eftir að Ísland vann N-Írland aftur - smá sárabót að allavegana eitt af mínum liðum sé að vinna eitthvað! *dæs*

Ég hef skánað mikið af kóngulóafóbíunni minni, þær eru allstaðar hérna og ég er bara orðin hálf vön þeim. Er þó ekki full læknuð. Hálfdrap sjálfa mig á leiðinni heim úr vinnunni einn daginn þegar þar var lítil, appelsínugul kónguló að skríða á mér. Mér tókst að slá hana af mér en svo var hún bara komin aftur. Ég hélt ég myndi sturlast. Svo í vikunni var ein risa risa RISA stór í baðinu. Bað Matt um að ná í tannburstann fyrir mig, ætlaði sko ekki að vera þarna inni meðan hún væri þar. Skildi Matt eftir með henni svo hann gæti hent henni út. Hann er samt ekki alveg hræðslulaus þegar það kemur að þeim. Það voru víst tvær í baðinu, annarri þeirra náði hann úr án vandamála. Hlussan, aftur á móti, var annað mál. Hann byrjaði á að reyna að setja glas yfir hana og ætlaði að reyna að ná henni þannig. Stórt bjórglas var ekki nægilega stórt fyrir helvítið, þar sem að hún var svona hrikalega lappalöng. Matt ákvað því að reyna að drekkja henni, með því að láta sturtuhausinn ausa á hana vatni. Hann skildi hana eftir í niðurfallinu með vatnið rennandi í lengri tíma, þangað til að hún var dauð - eða svo hélt hann. Hún var auðvitað of stór til að fara í niðurfallið, þannig að hann skellti haug af klósettpappír yfir hana. Byggði svo upp nógu mikið þor í að taka hana upp. Baðið er við hliðina á klósettinu þannig að þessi stutta hreyfing, frá baðinu yfir í klósettið, ætti að vera minnsta mál.

Nema..

Helvítið vaknar, og stekkur upp. Matt, hetjan mín, varð (skiljanlega) skíthræddur og hljóp út af baðherberginu og rakst á leiðinni í ljósakrónuna á ganginum sem er með smá dinglumdangl hangandi niður. Matt var þess vegna full viss um að kvikindið væri á höfðinu á honum. Kóngulóin var eftir allt þetta hálf veikluleg, og Matt náði að grípa hana snökkt og henda henni út um gluggan, þar sem að hún lenti á stól þar sem að hún kom sér vel fyrir í sólinni - hún var það stór að það var mjög greinilegt að sjá. *hrollur*

Skráning í skólann er á föstudaginn þannig að ég þarf ekki að hangsa mikið lengur og láta mér leiðast.

Hafið það gott - þangað til næst.

Saturday, September 08, 2007

Heppni?

Ég hef saknað Bold and the Beautiful endalaust mikið síðan ég flutti út, þeir voru sýndir hérna áður en ég flutti, en voru teknir af dagskrá - skil það nú ekki alveg, þvílíkir gæðaþættir þar á ferð. En allavegana, þá er komin ný stöð á Sky Boxið sem heitir Zone Romantica. Þeir sýna að vísu ekki Bold en þeir sýna það næst besta við það. Days of our lives. Ég hlakka til að verða húkt. Massimo (heitir Stephano í Days, og hann var í Santa Barbara og hét Carlo) er meira að segja í þessari sápu þannig að þetta er ekki of ólíkt Bold. Ég verð eiginlega að segja að þættirnir eru bara nákvæmlega eins...

Skotland var geggjað. Við flugum út á mánudagsmorgni, mjööög snemma. Flugum til Glasgow og þurftum svo að koma okkur til Edinborgar þar sem við ætluðum að vera fyrstu 2 næturnar. Liz vinkona okkar kom með okkur, og við ákváðum öll að setja pening í púkk til að nota í lestarferðir og matarkaup og þess háttar. Þar með varð the Kitty Committee til, sem að okkur fannst endalaust fyndið og gerum ennþá grín af því.

Við spurðum mann á lestarstöðinni í Edinborg sem vann á hótelsöluskrifstofu hvort hann vissi hvar gistiheimilið okkar væri. Hann sagði að það tæki svona 15 mínútur að labba þetta eða um 5 pund í taxa. Við ákváðum að labba þennan stutta spöl, the Kitty Committee var ekki tilbúin að láta 5 pund fyrir taxan. Við hefðum frekar átt að gera það, þrátt fyrir að það myndi hafa kostað aðeins meira en 5 pund í taxanum. Það tók okkur klukkutíma og 20 mínútur að labba þetta. Við lögðum okkur í nokkra tíma áður en við fórum aftur út.

Edinborgarfestivalið var í fullum gangi þegar við komum. Það stendur yfir í 4 vikur og það er bara geggjað. Mikið af götulistafólki og endalaust mikið úrval af sýningum. Við tókum strætó í bæinn, röltum á milli pöbba og skoðuðum okkur um. Bókuðum miða í draugaferð sem við fórum svo ekki í þar sem að við vorum uppgefin eftir daginn.

Daginn eftir fórum við á tvær sýningar. Við byrjuðum í The National Gallery of Scotland, þar sem að William Blake sýning var í gangi, auk mynda eftir Tizian, Monet og Botticelli (reyndar bara ein mynd). Fórum svo yfir á Andy Warhol sýninguna og hún var gegguð! Mér hefur aldrei fundist verkin hans neitt spes, en að sjá þetta allt á sýningu finnst mér hann bara geggjaður. Fórum svo í draugagöngu í undirgöng Edinborgar þar sem að Most Hunted hafa verið. Fórum svo á Foo Fighters tónleikana um kvöldið og það var baaaara snilld! Þeir eru snillingar og endalaust rólegir á þessu öllu saman.

Fórum daginn eftir á tvær leiksýningar, annars vegar The Importance of Being Earnest, sem var hrikalega skemmtilegt. Eftir að hafa spáð og spekúlerað í hvað við ættum að gera næst ákváðum við að fara á sketch sýningu sem heitir This Sketch Show Belongs to Lionel Richie. Algjör hörumung. Fékk 5 stjörnur og við héldum að þetta yrði fyndið, en svo var ekki. Fórum svo yfir til Glasgow um kvöldið.

Það var ekkert mikið um að vera í Glasgow, þannig að við fundum okkur pub með quiz machine og við vorum þar eiginlega alveg þangað til að við fórum á tónleikana. Red Hot Chili Peppers eru ekki alveg jafn skemmtilegir á sviði og Foo Fighters en samt mjög góðir. Fórum aðeins út á lífið í Glasgow eftir tónleikana en það lokaði allt um 12 þar sem að lögin eru ekki eins og í Englandi með frjálsa opnunartíma. Náðum þó nokkrum drykkjum.

Þar sem að það var ekkert um að vera í Glasgow fórum við snemma upp á flugvöll og ætluðum að bíða þar þangað til við áttum flug um kvöldið. Löbbuðum inn og sáum að það var flug til East Midlands um 5 leytið í staðinn fyrir 10. Við ákváðum að athuga hvort við kæmumst í það og það var ekkert mál. Skemmtum okkur brjálæðislega vel alla vikuna og við ætlum að reyna að komast aftur út á næsta ári þegar Edinborgar festivalið er í gangi og eyða heilli viku þar.

Að öðru..

Skólinn byrjar aftur 24. september og ég hlakka þvílíkt til. Þurfti að taka eitt endurtektarpróf sem ég náði þannig að ég get einbeitt mér að 3. árinu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af einu fagi af 2. ári. Trúi ekki að ég sé að byrja lokaárið, langar eiginlega bara ekkert að hætta í skólanum.. :) Á eina viku eftir í vinnunni og það er svo klikkaðislega mikið að gera að hún á eftir að fljúga hjá.

Hafið það gott - þangað til næst.