Lífið í Derby

Tuesday, April 22, 2008

Hlýtt og gott...

Loksins smá hiti, man bara ekki eftir því hvenær ég fór síðast út úr húsi og mig langaði að fara úr jakkanum. Labbaði niður á pósthús og veðrið er geggjað. Vona svo innilega að þetta eigi eftir að vera hlýtt og gott sumar, er búin að fá mig fullsadda af rigningu og kulda.

Langaði eiginlega ekkert inn aftur eftir að hafa labbað niður á pósthús, en ákvað að gera það nú samt, þar sem að ég þarf að undirbúa morgundaginn. Þarf að verja ritgerðina mína og er í senn bæði spennt og kvíðin. Allra síðasti Forensic tíminn var í gær og við vorum öll eiginlega hálfskrítin eftir það, ótrúlega skrítið að hugsa til þess að skólinn er að verða búin og ég er að klára gráðuna mína. Ég hélt einhvern veginn alltaf að skólinn myndi bara vara endalaust! :) Frá og með 16. júní verð ég officially ekki lengur nemandi. Einkunnirnar koma inn í lok júní og þá getum við farið að titla okkur með BSc í Forensic Science. Útskriftin verður þó ekki fyrr en í janúar, hef ekki hugmynd um af hverju, en það hefur alltaf verið svoleiðis.

Ég er sem sagt að verða fullorðin.. ;)

Búin að vera að fylgjast með vinnum, fann eina sem er í svona 40 mín akstri frá mér en síðasti dagur til að skila inn umsókn er ekki fyrr en 30. júní. Ég held samt áfram að leita og vonast til að fá vinnu við eitthvað tengt náminu sem fyrst, skíthrædd um að þurfa að fara að vinna við eitthvað sem mig langar ekki til að vinna við og festast í því til frambúðar. Held að það hræði mig mest af öllu. Er í rauninni skíthrædd við framhaldið, það er allt svo óljóst og finnst maður hanga í lausu lofti. Finn vonandi eitthvað bitastætt bráðlega :)

Until next time people!